Amanda vann sinn fyrsta titil með hollenska félaginu Twente og Karólína Lea var allt í öllu í endurkomusigri Bayer Leverkusen.
Karólína Lea átti tvær stoðsendingar þegar Leverkusen vann 3-2 útisigur á Freiburg í fyrstu umferð þýsku deildarinnar.
Freiburg komst í 1-0 úr vítaspyrnu á 15. mínútu leiksins en Leverkusen skoraði tvö mörk fyrir hálfleik.
Karólína lagði upp þau bæði, fyrst fyrir Janou Levels á 27. mínútu og svo fyrir Selinu Ostermeier á 45. mínútu.
Karólína var tekin af velli á 75. mínútu og eftir það jafnaði Freiburg metin úr víti. Kristin Kögel skoraði aftur á móti sigurmark Leverkusen með marki úr vítaspyrnu á 88. mínútu.
Amanda kom inn á sem varamaður þegar Twente vann 6-1 sigur á Ajax í hollenska Ofurbikarnum þar sem meistarar síðasta tímabils mættust.
Amanda kom inn í hálfleik þegar Twente var 2-1 yfir. Ajax komst í 1-0 en Twente svaraði með tveimur mörkum fyrir hálfleik.
Kayleigh van Dooren skoraði þrennu fyrir Twente í leiknum.
Amanda lagði upp fimmta markið fyrir Jaimy Ravensbergen sem skoraði tvö síðustu mörkin fyrir Twente.