Fótbolti

Fyrsta tap Le­verku­sen í 15 mánuði

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lois Openda fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Lois Openda fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Vísir/Getty

Ótrúleg taplaus hrina Bayer Leverkusen er á enda eftir tap gegn RB Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld. Leverkusen komst í 2-0 en missti niður forskotið í síðari hálfleik.

Bayer Leverkusen fór með sigur af hólmi í þýsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og það án þess að tapa leik. Liðið vann sigur í fyrsta leik nýhafins tímabils og mætti RB Leipzig á heimavelli sínum í dag.

Að loknum fyrri hálfleik benti lítið til þess að komið væri að tapleik hjá meisturunum. Jeremie Frimpong og Alex Grimaldo komu Leverkusen í 2-0 með mörkum á 39. og 45. mínútu en Kevin Kampl minnkaði muninn í 2-1 á sjöundu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan 2-1 að honum loknum.

RB Leipzig sneri leiknum síðan sér í vil í síðari hálfleik. Framherjinn Lois Openda jafnaði metin í 2-2 á 57. mínútu og hann bætti sínu öðru marki við á 80. mínútu og tryggði Leipzig 3-2 sigur.

Leverkusen tapaði þar með sínum fyrsta leik í þýsku úrvalsdeildinni síðan í maí árið 2023 en Xabi Alonso stýrði liðinu til meistaratitils í fyrsta sinn í sögunni á síðustu leiktíð. Liðið fór taplaust í gegnum deildina og vann bikarinn þar að auki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×