Sem leikmaður hér á landi í yfir áratug hefur Gary Martin unnið alla titla sem hægt er að vinna. Gary varð Íslandsmeistari með KR 2013 og bikarmeistari 2012 og 2014. Þá hefur hann skorað 57 mörk í 108 leikjum í efstu deild á Íslandi en í sumar hefur hann leikið með Víkingi Ólafsvík í 2.deild og mun að öllum líkindum leika sinn síðasta leik hér á landi um komandi helgi þegar að Víkingur Ólafsvík tekur á móti Kormáki/Hvöt í lokaumferð 2.deildarinnar.
„Eftir yfir áratug á Íslandi mun ég nú flytja aftur heim til Englands og spila þar í vetur,“ skrifar Gary í færslu á samfélagsmiðlum sem birtist fyrr í dag.
„Það gæti verið að ég snúi aftur á næsta ári, mögulega á lánssamningi yfir sumartímann en það er ekkert í hendi varðandi mögulega endurkomu til Íslands. Ég vil því þakka þeim liðum sem ég hef spilað fyrir á Íslandi á þessum rúma áratug. ÍA, KR, ÍBV, Valur, Víkingur Reykjavík, Selfoss og Víkingur Ólafsvík.

Nokkur þessara félaga eigi sérstakan stað í hjarta hans.
„Félög sem ég mun ávallt vera þakklátur fyrir að hafa komist í kynni við. ÍA fyrir að hafa gefið mér tækifæri á sínum tíma sem 19 ára gömlum leikmanni. Án félagsins hefði ég ekki orðið að neinu. KR fyrir að hafa gefið mér tækifæri að spila fyrir stærsta félag landsins og gert mér það kleift að vinna allt sem hægt var að vinna. Og svo Víkingur Ólafsvík sem gaf mér færi á því að finna aftur gleðina í fótboltanum. Leikmenn liðsins, þjálfarateymið og allir í kringum félagið hafa reynst mér mjög vel.“
Þá skilar Gary kveðju til allra þeirra leikmanna sem hann hefur spilað með á meðan á tíma hans hér á landi stóð.
„Einhverjir þeirra munu hafa kunnað vel við mig, aðrir vafalaust hatað mig. En ég hafði alltaf það markmið að vinna.“

Alls hefur Gary Martin spilað 347 keppnisleiki hér á landi samkvæmt tölfræði á vef Knattspyrnusambands Íslands og í þeim leikjum skorað 188 mörk og hið minnsta einn leikur eftir fyrir hann til þess að bæta við markafjölda sinn hér á landi.
„Ísland. Takk fyrir mig. Frábært land. Frábært fólk,“ skrifar Gary svo í lok færslu sinnar.