Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að Alþingi hafi í júlí samþykkt frumvörp um nýja Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun. Ný Umhverfis- og orkustofnun taki við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar, en Náttúruverndarstofnun taki við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar auk lífríkis og veiðistjórnunarhluta hennar.
Forstjóri Umhverfisstofnunar tekur við Náttúruverndarstofnun
Í tilkynningu segir að Sigrún hafi verið forstjóri Umhverfisstofnunar frá árinu 2020 og hafi starfað að umhverfismálum í rúm tuttugu ár. Hún hafi verið sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun frá árinu 2008 og auk þess staðgengill forstjóra áður en hún var skipuð í embætti forstjóra stofnunarinnar.
Þá hafi hún starfað sem lögfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu á árunum 2000 – 2008. Sigrún hafi lokið cand.jur. prófi frá Háskóla Íslands árið 1995.
Sigrún hafi sinnt prófdómarastörfum og stundakennslu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík meðfram öðrum störfum, meðal annars í umhverfisrétti og stjórnsýslu umhverfismála. Þá hafi hún starfað að alþjóðamálum á vettvangi umhverfismála um árabil.
Eiginmaður Sigrúnar sé Davíð Pálsson leiðsögumaður og þau eigi tvö börn.
Embætti forstjóra Náttúruverndarstofnunar hafi verið auglýst í júlí síðastliðnum og átta sótt um stöðuna.
Forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar beint úr stóriðjunni
Þá segir að Gestur, nýr forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar, hafi verið forstjóri PCC BakkiSilicon frá árinu 2022. Áður hafi hann meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri Veitna, forstjóri Elkem Ísland og framkvæmdastjóri öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismála hjá Elkem Ísland. Gestur hafi víðtæka reynslu af stjórnun og hafi átt sæti í framkvæmdastjórnum félaga sem æðsti stjórnandi eða sem næstráðandi nær óslitið frá árinu 2004.
Samhliða störfum fyrir Elkem Ísland hafi Gestur setið í stjórnum félaga á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi, meðal annars í stjórn Grænvangs - samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir og í stjórn Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð.
Gestur hafi lokið meistaragráðu í iðnaðar- og rekstrarverkfræði með áherslu á orkumál og áhættustýringu frá Oklahoma State University í Bandaríkjunum árið 1998.
Embætti forstjóra Umhverfis- og loftslagsstofnunar hafi verið auglýst í júlí síðastliðinn og sex sótt um stöðuna.
Umfangsmiklar stofnanabreytingar
Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun muni taka til starfa 1. janúar 2025, en nýju stofnanirnar séu liður í umfangsmiklum stofnanabreytingum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafi unnið að, ásamt undirstofnum, frá miðju ári 2022 og sem miði að því að skapa vettvang fyrir kraftmikið fagstarf og árangur.