Fótbolti

Sú marka­hæsta ekki með vegna klaufa­legra mis­taka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Khadija Shaw og Lauren Hemp fagna einu af fjölmörgum mörkum Shaw á síðustu leiktíð.
Khadija Shaw og Lauren Hemp fagna einu af fjölmörgum mörkum Shaw á síðustu leiktíð. Getty Images /Barrington Coombs

Khadija Shaw, markahæsti leikmaður Ofurdeildar kvenna á Englandi á síðustu leiktíð, verður ekki með Manchester City þegar liðið sækir París FC heim í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Ástæðan er sú að félagið gleymdi að sækja um vegabréfsáritun fyrir framherjann.

Frá þessu er greint á vef The Guardian. Þar segir að Shaw, sem er frá Jamaíka, hafi ekki ferðast til Frakklands þar sem Man City mætir París FC í fyrri leik liðanna um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

The Guardian segir Man City hafa reynt að sækja um áritun í gær, þriðjudag, en það var of seint í rassinn gripið. Félagið neitar því hins vegar að hafa reynt það og segir jafnframt að það verði engin vandræði varðandi vegabréfsáritun í framtíðinni.

Parísarliðið er ekkert lamb að leika sér við en það sló bæði út Arsenal og Wolfsburg á leið sinni í riðlakeppnina á síðustu leiktíð. Man City þarf að finna leið til að leggja þetta öfluga lið að velli þó það sé án framherjans - sem skoraði 21 mark í 18 leikjum á síðustu leiktíð - í fyrri leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×