Fótbolti

Stig tekin af liði Ás­dísar og fé­lagið gæti hætt

Sindri Sverrisson skrifar
Ásdís Karen Halldórsdóttir og stöllur í Lilleström hafa staðið sig vel innan vallar en félagið á hins vegar í afar miklum fjárhagsvandræðum.
Ásdís Karen Halldórsdóttir og stöllur í Lilleström hafa staðið sig vel innan vallar en félagið á hins vegar í afar miklum fjárhagsvandræðum. megapiksel.no

Fjárhagsvandræði halda áfram að hafa áhrif á lið landsliðskonunnar Ásdísar Karenar Halldórsdóttur, Lilleström, í norska fótboltanum.

Lilleström hefur vegnað nokkuð vel í norsku úrvalsdeildinni og er þar í 4. sæti af 10 liðum, á fyrsta tímabili Ásdísar í atvinnumennsku. Ásdís hefur skorað þrjú mörk.

Engu að síður hafa núna samtals fjögur stig verið tekin af Lilleström vegna fjárhagsvandræða, og það þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir í vor sem meðal annars sneru að máltíðum leikmanna.

Fyrst var eitt stig tekið af liðinu í maí og núna hafa þrjú stig til viðbótar verið tekin þar sem að liðið stóð ekki við þær áætlanir sem gerðar höfðu verið. Þetta kemur fram í tilkynningu norska knattspyrnusambandsins í dag.

Í stað þess að vera með 39 stig, stigi á eftir Rosenborg, eftir 21 umferð þá er Lilleström því núna með 35 stig. Liðið er þó áfram með gott forskot á næsta lið því Stabæk er í 5. sæti með 27 stig.

Lotte Lundby Kristiansen, stjórnarformaður hjá Lilleström kvennaliðinu, sagði við NTB í síðustu viku að mögulega yrði að draga liðið úr keppni áður en leiktíðinni lyki, svo slæm væri fjárhagsstaðan.

„Okkur skortir fé til að halda áfram út árið,“ sagði Kristiansen eftir að ljóst varð að ekki yrði að sameiningu félagsins með Lörenskog.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×