Bróðir manns sem lést eftir að hafa fallið ofan í sprungu í Grindavík segir niðurstöður rannsóknar Vinnueftirlitsins á slysinu með því alvarlegra sem hann hafi séð. Nú þurfi dómsmálaráðherra að taka undir kröfur fjölskyldunnar um að setja á fót óháða rannsóknarnefnd. Vinnueftirlitið spyr hvort verkefnið hafi verið áhættunnar virði.
Rannsókn lögreglu á banaslysi sem varð á Sæbraut aðfaranótt sunnudags miðar vel. Varðstjóri segir það æ algengara að almenningur reyni að komast inn fyrir lokanir á slysstöðum. Eftir helgina sé mælirinn fullur.
Þá förum við ofan í saumana á skýrslu starfshóps um flugvöll í Hvassahrauni og Heimir Már Pétursson rýnir í nýútkomna bók Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands. Prófessor í stjórnmálafræði segir bókina varpa ljósi á hatrammar deilur og veiti fágæta innsýn í atburðarás stjórnmálanna.
Stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans verður kynnt á morgun. Hverju mega landsmenn eiga von á? Við spáum í spilin með greinanda í beinni útsendingu.
Í sportinu fjöllum við um tímamót í sögu körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, sem kveður Ljónagryfjuna svokölluðu í kvöld. Og í Íslandi í dag hittum við hjón sem standa flestum framar í sveppatínslu.