Keppniskonan Þorgerður Katrin Gunnarsdóttir var menntamálaráðherra í sex ár í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde þar til ríkisstjórn þess síðarnefnda sprakk eftirminnilega í efnahagshruninu snemma árs 2009. Við tóku fjögur erfið ár í stjórnarandstöðu við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem glímdi við uppbyggingu efnahagslífsins eftir hrunið.
Þegar kosningarnar 2013 nálguðust ákvað Þorgerður Katrín að láta gott heita og bauð sig ekki fram til áframhaldandi setu á Alþingi. Eftir að Jóhönna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon gengu síðan lúin frá ríkisstjórnarborðinu tók gamalkunnugt stjórnarmynstur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við.
En eins og flestir vita var Sigmundur Davíð ekki lengi í þeirri Paradís með Bjarna Benediktssyni. Eftir að Sigmundur Davíð sagði af sér vegna uppljóstrana í tengslum við Panamaskjölin var boðað til snemmkosninga árið 2016. Þá hafði Viðreisn, nýr klofningsflokkur út úr Sjálfstæðisflokknum, verið stofnaður og Þorgerður Katrín gengið til liðs við þessa hreyfingu sem kenndi sig við frjálslyndi og stuðning við aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Ári síðar var Þorgerður Katrín orðin formaður Viðreisnar. Nú er formaðurinn nýstiginn af haustþingi flokksins sem er farinn að brýna hnífana fyrir næstu alþingiskosningar.
Samtalið er í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi klukkan 14:00. Þátturinn verður síðan sýndur á Stöð 2 klukkan 19:05 í kvöld.