Íslenski boltinn

Sjáðu at­vikið: Reiður Rúnar sá rautt

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson var ekki skemmt í lok leiks í Kórnum í kvöld.
Rúnar Páll Sigmundsson var ekki skemmt í lok leiks í Kórnum í kvöld. vísir/Diego

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var allt annað en ánægður þegar HK jafnaði undir lok leiks liðanna í kvöld. Hann fékk að launum reisupassann og hans menn fallnir niður um deild.

Fylkir lenti undir í blálok fyrri hálfleiks þegar Birkir Eyþórsson skoraði einkar klaufalegt sjálfsmark eftir að mikið bras hafði verið á mönnum í öftustu línu.

Fylkismenn svöruðu hins vegar vel fyrir sig eftir hléið. Þóroddur Víkingsson jafnaði leikinn strax í upphafi síðari hálfleiks og Benedikt Daríus Garðarsson breytti stöðunni í 2-1 fyrir Fylki á 59. mínútu.

Þannig var staðan allt fram á 96. mínútu. Á þeirri lokamínútu uppgefins uppbótartíma jafnaði Brynjar Snær Pálsson fyrir HK.

2-2 lauk leiknum og felldi jöfnunarmarkið Fylki niður um deild. Ljóst var fyrirfram að allt annað en sigur í öllum þremur leikjunum sem Árbæingar áttu eftir þýddu fall.

Klippa: Reiður Rúnar fær rautt

Rúnar Páll var óánægður með eitthvað við jöfnunarmarkið og lét öllum illum látum. Hann fékk að launum rautt spjald frá dómara leiksins og var ekki runnin reiðin. Hann sparkaði í brúsa og fleira lauslegt, enda skiljanlega ósáttur við fall sinna manna.

Atvikið má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×