Frakkar eiga fyrir höndum leiki við Ísrael (leikið í Búdapest) og Belgíu í Þjóðadeildinni í fótbolta, og hófu æfingar í herbúðum sínum í Clairefontaine í gær.
Þangað mætti Konaté með einhvers konar grímu eða hettu yfir öllu andlitinu. Þekkt er að leikmenn franska landsliðsins leggja sig fram við að fara óhefðbundnar leiðir í fatavali en yfirleitt þekkjast þeir þó.
„Vitið þið ekki hver ég er?“ spurði Konaté frönsku blaðamennina sem biðu eftir því að sjá leikmenn mæta á æfingasvæðið.
Hann renndi svo niður rennilásnum og sýndi á sér andlitið, og brosti í myndavélarnar.
Ibrahima Konaté's new look at Clairefontaine 🎭 pic.twitter.com/xmPSoRmMWo
— B/R Football (@brfootball) October 7, 2024
Franska knattspyrnusambandið er með styrktarsamning við Nike en það er ekki ljóst á hvaða tímapunkti leikmönnum ber skylda til að láta aðeins sjá sig í Nike-fatnaði. Vanalega mæta þeir í það minnsta í borgaralegum klæðum, ef svo má segja, til fyrstu æfingar.
Frakkar verða án Antoine Griezmann og Kylian Mbappé í leikjunum. Griezmann tilkynnti nýverið að hann væri hættur í landsliðinu en Mbappé fékk frí til að jafna sig af meiðslum.
Eftir landsleikina fer Konaté aftur heim til Liverpool en þar eru menn vongóðir um að þessi sterki varnarmaður skrifi undir nýjan samning von bráðar, samkvæmt ítalska blaðamanninum Fabrizio Romano.
🚨 Liverpool are confident to complete agreement on new deal with Ibrahima Konaté soon as talks are now progressing well.
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) October 8, 2024
He's expected to sign new contract after Quansah, as crucial part of club's project and really appreciated by Arne Slot. pic.twitter.com/e7I60nwDX3
Romano segir að Arne Slot, sem tók við Liverpool í sumar, sé afar hrifinn af Konaté sem kom inn á í seinni hálfleik í fyrsta leik undir stjórn Slots og hefur haldið sæti sínu í liðinu síðan þá.