Sport

Þak leik­vangsins rifnaði í tætlur

Sindri Sverrisson skrifar
Tropicana Field hefur verið heimavöllur hafnaboltaliðsins Tampa Bay Rays alla tíð.
Tropicana Field hefur verið heimavöllur hafnaboltaliðsins Tampa Bay Rays alla tíð. Getty/Mike Carlson

Leikvangur hafnaboltaliðsins Tampa Bay Rays varð fellibylnum Milton að bráð í nótt og á fjölda myndbanda má sjá hve sundurtætt þak leikvangsins er orðið.

Svo illa rifnaði þakið að fólk í næsta nágrenni gat horft beint inn á leikvanginn, sem staðsettur er í St. Petersburg í Flórída og var opnaður árið 1990.

Leikvangurinn heitir Tropicana Field og er eini leikvangurinn í MLB-deildinni með þaki sem er, eða var, alltaf lokað. Til stóð að leikvangurinn yrði nýttur sem neyðarskýli fyrir þúsundir manna sem kæmu til með að leita þangað vegna fellibylsins. Fréttastöðin ABC segir að engan hafi hins vegar sakað þegar leikvangurinn skemmdist.

Samkvæmt veðurstöð á Albert Whitted flugvellinum, í sex mínútna fjarlægð frá leikvanginum, náðu vindhviður 45 m/s. Samkvæmt upplýsingum um leikvanginn var þakið byggt til að þola vindstyrk allt að 51 m/s.

The Trop, eins og leikvangurinn er kallaður, hefur verið heimavöllur Tampa Bay Rays alla tíð eða frá áirnu 1998. Þar hafa einnig farið fram leikir í bandaríska háskólaruðningnum, fótbolta og jafnvel íshokkí. Til stendur að nýr leikvangur verði heimavöllur Rays frá og með árinu 2028.

Fellibylurinn Milton kom að vesturströnd Flórída um klukkan hálfníu í gærkvöld að staðartíma og hafði í aðdragandanum verið lýst sem „óveðri aldarinnar“. Beina útsendingu frá vefmyndavélum í Flórída má sjá á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×