Ólafur bendir á að flokkarnir hafi í aðdraganda ákvörðunarinnar og um langt skeið verið að mælast illa í skoðanakönnunum.
„Sigurður Ingi sagðist vilja halda áfram og að hann hefði talið líkur á því að efnahagurinn færi batnandi og að stjórnarflokkarnir myndu þá njóta þess,“ segir Ólafur sem bendir á að tónninn hjá Svandísi Svavarsdóttur, formanni VG hafi verið öllu harðari.
„Vinstri græn höfðu lýst því yfir að þau vildu kosningar í vor og að þau vildu ekki halda áfram í þessu stjórnarsamstarfi. Það er nú það sem mönnum hefur sýnst að væri helsta ráðið fyrir Vinstri græn að reyna að endurnýja þá ímynd að þeir séu alvöru vinstri sósíalistaflokkur. Það hentar þeim ágætlega að vera í svolitlum slag við Sjálfstæðisflokkinn upp á það að gera,“ segir Ólafur.
Líkt og greint hefur verið frá, lagði Bjarni það til á blaðamannafundi í gær að ríkisstjórnin myndi sitja áfram fram að kosningum en á þessari stundu er óljóst hvernig sú hugmynd leggst í formenn VG og Framsóknar.
Enn opin spurning hvað Svandís vill gera
„Já það er ljóst að þessi einhliða ákvörðun Bjarna kom Svandísi og Sigurði á óvart og þau eru greinilega ekki ánægð með hana. Hins vegar er það að ýmsu leyti þægilegast að stjórnin sitji bara áfram, fram að kosningum og mér hefur nú heyrst að Sigurður Ingi sé að minnsta kosti tilbúinn í það en það en það er hins vegar opin spurning hvað Svandís vill gera.“
En hvaða aðrir kostir eru í stöðunni? Ef við gefum okkur þá sviðsmynd að Svandís segði nei, hvað yrði þá í boði?
„Það er náttúrulega hugsanlegt að það verði mynduð minnihlutastjórn eða til dæmis stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fram að kosningum, stundum hefur það verið, til að mynda gerðist það árið 1979 þegar vinstri stjórn sprakk. […] En þá myndaði Alþýðuflokkurinn minnihlutastjórn. Það tók eina tvo mánuði að mynda ríkisstjórn áður en stjórn Gunnars Thoroddsen var mynduð og minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sat þann tíma.“
Gæti dregið til meiriháttar tíðinda í íslenskum stjórnmálum
Ólafur telur að það sé ekki ráðlegt að bera fram spádóma um næstu skref en segist þó telja að líklegast sé að það verði kosið 30. nóvember.
„Þetta verður mjög spennandi. Ef úrslitin verða eitthvað í líkingu við kannanir þá verða þetta meiriháttar tíðindi í íslenskum stjórnmálum en hins vegar getur margt breyst á þessum sex vikum sem eru til kosninga. Fylgið getur breyst verulega á þeim tíma.“