Viðskipti innlent

Í­búða­verð lækkar í fyrsta sinn frá janúar

Árni Sæberg skrifar
Lækkun fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu vó þyngst í mælingunni.
Lækkun fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu vó þyngst í mælingunni. Vísir/Vilhelm

Vísitala íbúðaverðs mældist 108,4 stig í september og lækkaði um 0,28 prósent á milli mánaða og er það í fyrsta skiptið sem íbúðaverð lækkar á milli mánaða frá því í janúarmánuði.

Í tilkynningu á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir að á síðustu tólf mánuðum hafi íbúðaverð hækkað um 9,5 prósent, sem sé 3,9 prósent yfir tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs, verðbólgu.

Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði hressilega en fjölbýli vegur þyngst

Mánaðarlækkun íbúðaverðs hafi verið mest hjá íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem verð á sérbýlum hafi lækkað um 1,72 prósent og verð á fjölbýlishúsum um 0,28 prósent. 

Flestir kaupsamningar í útreikningi vísitölunnar séu um fjölbýlishús á höfuðborgarsvæðinu og vegi þar með mest í lækkuninni. Þrátt fyrir mánaðarlækkun íbúðaverðs á landinu öllu hafi íbúðaverð hækkað milli mánaða hjá sérbýlishúsum á landsbyggðinni um 2,45 prósent, en færri samningar séu um sérbýli á landsbyggðinni.

Raunverðið hækkaði

Íbúðaverð haldi áfram að hækka umfram verðlag á landinu öllu, en ekki eins mikið og í júlí og ágúst. Raunverðshækkun hafi numið 3,9 prósent í september, á sama tíma og raunverðshækkun hafi numið 4,5 prósent í ágúst og 4,4 prósent í júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×