Fótbolti

FIFA setur Viðar Örn í sex mánaða bann

Siggeir Ævarsson skrifar
Viðar í baráttuni gegn Fylki í sumar
Viðar í baráttuni gegn Fylki í sumar Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Framherjinn Viðar Örn Kjartansson hefur verið dæmdur í sex mánaða bann af FIFA en bannið er tilkomið vegna framkvæmdar á starfslokum hans hjá CSKA Sofia í Búlgaríu. 

Það var 433.is sem greindi fyrst frá málinu.

Viðar Örn gekk í raðir KA fyrir tímabilið og samdi þá um starfslok hjá CSKA. Þar samdi hann um greiðslur og ákveðnar skyldur við félagið og sagði hann sjálfur í samtali við 433.is að málið hefði komið honum í opna skjöldu enda hafi hann talið að ekki ætti að gera málið upp á þessu ári.

Haukur Hinriksson, lögfræðingur KSÍ, staðfesti fréttirnar í samtali við 433.is. Viðar er kominn í bann frá allri knattspyrnuiðkun næstu sex mánuði en getur þó losnað strax úr banninu geri hann skuldina upp við búlgarska félagið. 

Ákveði Viðar að sitja bannið af sér gæti farið svo að FIFA dæmi hann aftur í bann en á þessum tímapunkti er alls óljóst hvernig málið mun þróast og hvort FIFA grípi til slíkra ráða.

Viðar er fæddur árið 1990 og hélt út í atvinnumennsku árið 2014. Hann snéri heim úr atvinnumennskunni á þessu ári og gekk til liðs við KA, en hann er samningsbundinn liðinu út þetta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×