Þeir fimm þingmenn sem hófu síðasta kjörtímabil en verða ekki áfram eru Katrín Jakobsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir í Reykjavíkurkjördæmi norður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Jódís Skúladóttir úr Norðausturkjördæmi og svo Bjarni Jónsson úr Norðvesturkjördæmi.
Katrín hætti á miðju kjörtímabili til að fara í forsetaframboð eins og frægt er, Jódís tilkynnti að hún væri hætt í pólitík eftir að hún fékk ekki oddvitasæti hjá uppstillingarnefnd og Bjarni, Bjarkey og Steinunn tilkynntu að þau myndu ekki bjóða sig fram að nýju.
Þó hefur Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar og pólitískur greinandi, spáð fyrir um að Bjarni muni fara yfir í Miðflokkinn og er því ekki útilokað að hann verði áfram á þingi ef það reynist rétt.
Þingmennirnir þrír sem hófu síðasta kjörtímabil en hafa ekki tilkynnt um að þeir hyggist hætta eru Svandís Svavarsdóttir og Orri Páll Jóhannsson úr Reykjavíkurkjördæmi Suður og Guðmundur Ingi Guðbrandsson úr Suðvesturkjördæmi. Eva Dögg Davíðsdóttir tók sæti Katrínar Jakobsdóttur á miðju kjörtímabili og mun sennilega bjóða sig fram að nýju.