Þórisvatn, mikilvægasta vatnsforðabúr Landsvirkjunar, náði ekki að fyllast í haust.
„Þó að það hafi verið úrkomusamt á láglendinu þá náði úrkoman ekki upp á hálendið. Og síðan auðvitað er þetta afkoma jöklanna,“ segir Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu Landsvirkjunar, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
Þetta þýðir að ekki fá allir þá raforku sem þeir höfðu óskað eftir.
„Í dag eru að taka gildi áður boðaðar skerðingar hjá stórnotendum á suðvesturhluta landsins. Og síðan erum við jafnframt að tilkynna um skerðingar til þeirra stórnotenda sem eru starfandi á Norðausturlandi.“

Forgangsorka verður þó ekki skert.
Svona staða hefur komið upp nokkur undanfarin ár en núna varar Landsvirkjun við því að skerðingar geti staðið fram á vor, auk þess sem Norður- og Austurland bætast núna við. En er þetta víðtækara núna en áður?
„Það má kannski segja að við séum að byrja skerðingarnar fyrr en áður. Síðasta vatnsár þá hófum við skerðingar eftir áramót. Þannig að ég mundi ekki segja að það væri víðtækara,“ svarar Tinna.
Hún segir að hvorki hafi verið lagt mat á tekjutap Landsvirkjunar vegna minni orkusölu né á tap orkukaupenda vegna skertrar framleiðslugetu en ástandið bitnar helst á þeim ellefu fyrirtækjum sem teljast stórnotendur.
„Þetta eru auðvitað álverin og kísilverin og svo framvegis. Þannig að þetta eru fyrst og fremst þessir aðilar, þessir stærstu raforkunotendur á landinu.“

Og fiskimjölsverksmiðjur þurfa að brenna olíu.
„Það felur það í sér að fiskimjölsbræðslurnar hafa ekki aðgang að raforku þegar staðan er svona.“
Og þeir sem vilja kaupa meiri raforku koma að tómum kofanum.
„Þetta er auðvitað ekki ásættanlegt ástand og er birtingarmynd þess að við höfum ekki náð að halda í við eftirspurnina. Framboðið, það hefur verið að tefjast, að það komist nýjar virkjanir inn á kerfið.
Þannig að auðvitað er þetta ekki ásættanlegt. Það er mikilvægt að við reynum að koma nýjum virkjunum í gagnið sem allra fyrst,“ segir Tinna í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér: