Alvarlegt slys varð við Tungufljót í Árnessýslu síðdegis. Maður sem féll í fljótið var fluttur með sjúkrabíl af vettvangi. Mikill viðbúnaður var á slysstað og lögregla rannsakar málið.
Kamala Harris mælist með óvænt forskot á Donald Trump í ríki sem hann hefur hingað til unnið örugglega í forsetakosningum. Sagnfræðingur og fyrrverandi diplómati í Bandaríkjunum telur að úrslit kosninganna gætu sveiflast afgerandi í aðra hvora áttina. Óvænt atriði með Harris í skemmtiþætti hefur reitt repúblikana til reiði.
Sjúkratryggingar Íslands hyggjast fara með niðurstöðu nýs úrskurðar, þar sem lögð var fjörutíu milljóna sekt á stofnunina vegna ólögmætra samninga við myndgreiningarfyrirtæki, fyrir dómstóla. Forstjóri stofnunarinnar segir að málið gæti reynst afdrifaríkt. Hann hafnar ásökunum um mismunun.
Við sýnum myndir frá Valensíahéraði á Spáni, þar sem Filippus Spánarkonungur varð fyrir aðkasti mótmælenda eftir hamfaraflóð, og hittum nýbúa frá Moldóvu, sem festi kaup á íbúð og hefur síðasta eina og hálfa árið gert hana upp. Nú hyggst hann selja hana, kaupa sér minni íbúð og freista þess að verða skuldlaus.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30 í opinni dagskrá.