Þegar tæplega 99 prósent atkvæða höfðu verið talin hafði Sandu fengið 55 prósent þeirra samkvæmt yfirkjörstjórn Moldóvu. Keppinautur hennar, Alexandr Stoianoglo, fyrrverandi saksóknari sem naut stuðnings Sósíalistaflokksins og er hallur undir Rússland, var þá með 45 prósent atkvæða.
Eftir fyrri umferð forsetakosninganna og þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu sakaði Sandu rússnesk stjórnvöld um meiriháttar afskiptasemi. Birtingarmynd hennar var kosningasvik, ógnanir og mútur.
„Moldóva, þú stendur uppi sem sigurvegari. Í dag hafið þið gefið kennslustund í lýðræði sem verðskuldar að vera skráð í sögubækurnar, kæru Moldóvar,“ sagði Sandu þegar hún lýsti yfir sigri í nótt.
AP-fréttastofan segir sigur Sandu létti fyrir ríkisstjórn Moldóvu sem er hlynnt því að opna vesturgluggann. Stjórnarskrárbreyting sem var samþykkt naumlega samhliða fyrri umferð forsetakosninganna í síðasta mánuði færir Moldóvu nær aðild að Evrópusambandinu.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, óskaði Sandu til hamingju með sigurinn í færslu á samfélagsmiðlinum X og virtist vísa óbeint til afskipta Rússa.
„Það krefst fádæma styrkleika að yfirstíga þær áskoranir sem þú stóðst frammi fyrir í þessum kosningum,“ skrifaði von der Leyen.
Congratulations, dear @sandumaiamd, on your victory tonight.
— Ursula von der Leyen (@vonderleyen) November 3, 2024
It takes a rare kind of strength to overcome the challenges you’ve faced in this election.
I’m glad to continue working with you towards a European future for Moldova and its people. pic.twitter.com/YcCurwhpCq