Gylfi Þór sagði í viðtali við Hjörvar Hafliðason í hlaðvarpinu Dr. Football í vikunni að um sameiginlega ákvörðun KSÍ, þjálfarateymisins og Gylfa sjálfs hefði verið að ræða. Hareide segist hins vegar hafa viljað Gylfa í hópinn.
„Það er milli KSÍ og Gylfa. Við ræddum málin og það var ákveðið að hann kæmi ekki með. Konan hans var að eignast barn og þetta gæti verið fjölskyldutengt. En við ræðum það ekki við fjölmiðla,“ segir Hareide.
Hareide segir Gylfa hafa verið tilbúinn í slaginn þegar þeir ræddu saman í síðustu viku en það hafi svo breyst.
„Ég ræddi við hann í síðustu viku og þá var hann klár í slaginn. Svo þetta kom mér á óvart en við þurfum að virða það,“ segir Hareide.
Ísland mætir Svartfjallalandi og Wales í lokaleikjum riðlakeppninnar í Þjóðadeildinni í næstu viku. Leikirnir verða báðir sýndir í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.
Viðtalið má sjá að neðan.