Fótbolti

Glódís kom Bæjurum á bragðið með hörkuskalla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir skoraði fyrsta mark Bayern München gegn Jena.
Glódís Perla Viggósdóttir skoraði fyrsta mark Bayern München gegn Jena. getty/Boris Streubel

Eftir að hafa gert jafntefli í tveimur síðustu leikjum sínum í þýsku úrvalsdeildinni vann Bayern München 5-0 sigur á Jena í dag. Glódís Perla Viggósdóttir skoraði fyrsta mark Bæjara í leiknum.

Bayern er í 3. sæti þýsku deildarinnar með 23 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Wolfsburg. Frankfurt er í 2. sætinu, einnig með 23 stig, og Bayer Leverkusen getur einnig náð 23 stigum með sigri á RB Leipzig seinna í dag.

Glódís kom Bayern á bragðið á 19. mínútu. Hún skallaði þá hornspyrnu Georgiu Steinway í netið og skoraði sitt fyrsta deildarmark á tímabilinu. Glódís hefur alls skorað tíu mörk fyrir Bayern síðan hún kom til félagsins 2021.

Þýska landsliðskonan Klara Buhl tvöfaldaði forskot Bayern tíu mínútum eftir mark Glódísar og staða þýsku meistaranna því vænleg. 

Bæjarar bættu svo þremur mörkum við undir lokin í seinni hálfleik. Lea Schuller skoraði tvö markanna og Jovana Damnjanovic eitt.

Lokatölur 5-0 sigur Bayern. Næsti leikur liðsins er gegn Vålerenga í Meistaradeild Evrópu á fimmtudaginn. Næsti deildarleikur er svo gegn Freiburg eftir viku. Síðan kemur landsleikjahlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×