Í reglugerðinni er kynnt nýtt fyrirkomulag á greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgana, auk þess sem greiðsluþátttaka er aukin. Samkvæmt núgildandi reglugerð er greiðsluþátttaka 5% vegna fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferðar (24 þúsund krónur) og 65% af 2.-4. meðferð (312 þúsund krónur).
Í drögum að nýrri reglugerð er lagt til að taka upp fastan krónutölustyrk í stað prósentuhlutfalls og að greiðsluþáttaka verði 150 þúsund krónur fyrir fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð og 400 þúsund krónur fyrir hverja meðferð frá 2.-4. meðferð. Þá er sérstaklega tekið fram að tæknisæðing falli undir gildissvið reglugerðarinnar.
Með breytingunum yrði greiðsluþátttaka í fyrstu tæknifrjóvgunarmeðferð aukin sexfalt og þátttaka sjúkratrygginga í meðferðum 2-4 aukin um tæpar 90 þúsund krónur í hverri meðferð. Hærri greiðsluþátttaka yrði þeim einstaklingum, sem sækja þessa kostnaðarsömu þjónustu, til verulegra hagsbóta auk þess sem fjárhæð greiðsluþátttöku verður fyrirsjáanlegri en áður með föstum styrkjum.
Umsagnarfrestur er til 2. desember en stefnt er að því að reglugerðin taki gildi 1. janúar 2025.