Fótbolti

„Ætla ekki að standa hérna og tala um ein­hverja ein­stak­linga“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðlaugur Victor var svekktur eftir tap kvöldsins.
Guðlaugur Victor var svekktur eftir tap kvöldsins. Stefan Ivanovic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Guðlaugur Victor Pálsson, miðvörður í liði Íslands, var að vonum svekktur eftir 4-1 tap fyrir Wales í Cardiff í Þjóðadeild karla í fótbolta í kvöld. Tapið var full stórt fyrir hans smekk.

„Við byrjum leikinn mjög vel og erum mjög aggressívir. Við stöndum vel í blokkinni okkar, skorum mark og hefðum getað skorað fleiri,“ segir Guðlaugur Victor í samtali við Aron Guðmundsson í Cardiff.

„Ég sé ekki alveg hvað gerist í fyrsta markinu en við bara gefum of mörg mörk í dag. Í seinni hálfleik förum við maður á mann, erum að sækja og fáum færi til að skora. Það er stutt á milli í þessu. Léleg mörk sem við fáum á okkur, við gefum þeim þau. Þegar við erum svona aggressívir einn á móti í einum í pressunni, og gerum mistök, þá er refsað fyrir þau,“ segir Guðlaugur enn fremur.

„Við reyndum og erum að koma hingað gegn góðu liði. Það er bara ótrúlega stutt á milli í fótbolta sem sýndi sig í dag,“ segir Guðlaugur.

Aðspurður um hvort meiðsli Orra Steins Óskarssonar snemma leiks vildi Guðlaugur ekki kenna því um.

„Við erum með flottan hóp, góðan hóp. Það kemur maður í manns stað. Ég ætla ekki að standa hérna og tala um einhverja einstaklinga. Við erum lið og í dag töpuðum við sem lið,“ segir Guðlaugur.

Aðspurður um landsliðsgluggann í heild segir Guðlaugur:

„Þetta endar náttúrulega mjög leiðinlega. Við ætluðum að enda þetta ár vel, við ætluðum að enda þetta með sigri og koma okkur í góða stöðu fyrir umspilið. Svona fór þetta. Núna fara allir í sín lið og við sjáumst á næsta ári.“

Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.


Tengdar fréttir

Einkunnir Íslands: Vafasöm varnarlína

Landsliðsmenn Íslands áttu misgott kvöld í kaflaskiptum leik við Wales í kvöld en tapaðist full stórt. 4-1 sigur Wales niðurstaðan í leik þar sem Ísland hefði hæglega getað skorað fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×