Stuðningsmenn íslenska landsliðsins bíða nú eftir tveimur dráttum.
Á morgun verður dregið um það hvaða liði Ísland mætir í B/C-umspili Þjóðadeildarinnar í mars. Ísland endaði í 3. sæti síns riðils í B-deildinni og þarf að halda sæti sínu í B-deild með því að vinna eitt þessara liða: Armenía, Búlgaría, Slóvakía og Kósovó.
Í umspilinu verður leikið á heima- og útivelli, en heimaleikur Íslands verður erlendis vegna framkvæmda á Laugardalsvelli.
Þann 13. desember verður svo dregið í undankeppni HM 2026, sem verður spiluð á næsta ári, frá mars til nóvember. Í undankeppninni verður spilað í tólf 4-5 liða riðlum og kemst sigurlið hvers riðils beint á HM.
Liðin tólf sem enda í 2. sæti fara í umspil með fjórum liðum sem unnu sinn riðil í Þjóðadeildinni, og komast fjögur lið á HM í gegnum það umspil.
Leika alla undankeppnina næsta haust
Það er þegar orðið ljóst að Ísland verður í fjögurra liða riðli í undankeppni HM, en ekki fimm liða, og spilar því samtals aðeins sex leiki í henni, öfugt við til dæmis tíu leiki í undankeppninni sem kom Íslandi á HM 2018.
Þar spilar inn í að liðið verður upptekið í Þjóðadeildarumspilinu í mars, og mun Ísland því ekki hefja sína undankeppni fyrir HM fyrr en í september á næsta ári, og ljúka henni í nóvember. Þá ætti blandaði grasvöllurinn á Laugardalsvelli, þar sem framkvæmdir standa yfir, að vera orðinn klár.
Búið er að flokka Evrópuþjóðirnar í fimm styrkleikaflokka fyrir dráttinn í undankeppni HM. Ísland mun dragast gegn einu liði úr flokki 1, einu úr flokki 2 og einu úr flokki 4, en ekki fá lið úr neðsta flokknum.
Gallinn er að liðið sem Ísland fær úr efsta flokki verður kannski ekki ljóst fyrr en eftir 8-liða úrslit Þjóðadeildarinnar í mars, þegar skýrist hvaða lið verða upptekin í undanúrslitum keppninar í júní.
Ljóst er að í flokki 2 koma aðeins sex lið til greina í riðil Íslands, en það eru þau lið sem líkt og Ísland verða upptekin í umspilsleikjum í mars.
Styrkleikaflokkar fyrir drátt í undankeppni HM:
Flokkur 1: Spánn, Þýskaland, Portúgal, Frakkland, Ítalía, Holland, Danmörk, Króatía, England, Belgía, Sviss, Austurríki.
Flokkur 2: Úkraína, Tyrkland, Ungverjaland, Serbía, Grikkland, Slóvakía. (Svíþjóð, Wales, Pólland, Rúmenía, Tékkland og Noregur verða í fimm liða riðlum og koma ekki til greina sem mótherjar Íslands)
Flokkur 3: Skotland, Slóvenía, Írland, Albanía, Norður-Makedónía, Georgía, Finnland, Ísland, Norður-Írland, Svartfjallaland, Bosnía, Ísrael.
Flokkur 4: Búlgaría, Lúxemborg, Kósovó, Hvíta-Rússlnad, Armenía, Kasakstan, Aserbaísjan, Eistland, Kýpur, Færeyjar, Lettland, Litháen.
Flokkur 5 (ekki í riðli með Íslandi): Moldóva, Malta, Andorra, Gíbraltar, Liechtenstein, San Marínó.