Valur Páll Eiríksson skrifar frá Innsbruck
Steinunn á til að vera slysagjörn og eitt slíkt átti sér stað í gær. Hún var heldur ófrýnileg með hálfa framtönnina en brugðist var hratt við og sat hún í tannlæknastólnum í allan morgun.
Hún brosti því breitt þegar undirritaður tók hana tali fyrir æfingu landsliðsins í keppnishöllinni klukkan 11 að staðartíma.
„Það er alltaf eitthvað að koma fyrir mig. Ég missti helminginn af framtönninni í gærkvöldi. Ég er mjög fegin að vera komin með stellið aftur. Ég mun brosa allan hringinn næstu daga,“ segir Steinunn skælbrosandi.
Hún segist hafa verið farin að efast um þátttöku sína í leik föstudagsins. Án brossins væri ekki gengið að því að spila leikinn.
„Ég var farin um að efast um að ég gæti spilað ef ég gæti ekki brosað. Ég er mjög fegin og það var góð þjónusta hjá tannlæknum og starfsfólkinu hérna í kring,“ segir Steinunn sem mætir því galvösk til leiks í frumraun sinni á stórmóti gegn Hollendingum á morgun.
Ísland og Holland mætast klukkan 17:00 á morgun. Leiknum verður lýst beint á Vísi og verður landsliðinu fylgt vel eftir fram að leik.