Það var ekki nóg með að Dawson og Úlfarnir steinlágu 4-0 á móti Everton þá varð Dawson sjálfur fyrir því óláni að setja boltann í rangt mark, ekki einu sinni heldur tvisvar.
Wolves var 2-0 undir í leiknum þegar Dawson skoraði fyrra sjálfsmarkið sitt á 49. mínútu en það seinna kom síðan á 72. mínútu.
Fyrra markið kom eftir hornspyrnu Dwight McNeil en því í seinna fór aukaspyrna McNeil af Dawson og í markið.
Með því komst Dawson í fámennan en um leið afar óvinsælan klúbb. Hann varð aðeins fimmti leikmaðurinn til að skora tvö sjálfsmörk í sama leik í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Síðastur á undan honum til að bætast við hópinn var Wout Faes sem skoraði tvö sjálfsmörk í 2-1 tapi Leicester City á móti Liverpool í desember 2022.
Hinir meðlimirnir í klúbbnum eru Jamie Carragher (1999, Liverpool á móti Manchester United), Michael Proctor (2003, Sunderland á móti Charlton) og Jonathan Walters (2013, Stoke á móti Chelsea).
Dawson varð 152. leikmaðurinn til að spila þrjú hundruð leiki í ensku úrvalsdeildinni en leikina spilaði hann fyrir lið West Bromwich Albion, Watford, og svo Wolverhampton Wanderers.
Hann hefur alls skorað fimm sjálfsmörk í þessum þrjú hundruð leikjum en mörkin hans í rétt mark eru 21 talsins.