Variety greinir frá þessu. Persónan sem White leikur mun heita Rotta jöfur, eða Rotta the Hutt á frummálinu. Kvikmyndin sem um ræðir mun bera titilinn The Mandalorian & Grogu. Búist er við því að myndin komi í kvikmyndahús árið 2026.
Jabba jöfur ættu allir aðdáendur Stjörnustríðs að þekkja. Hann kom fyrst fyrir í þriðju kvikmyndinni um Stjörnustríð, Jeddin snýr aftur, frá árinu 1983 sem er raunar sjötti kafli þessarar löngu sögu.
Þegar myndin var frumsýnd á Íslandi var Jabba lýst með eftirfarandi hætti í DV:
„Jabba stórjaxl er eitt víðáttumikið slefandi hrúgald sem ríkir í undirheimum stjarnanna. Þessi jöfur hefur safnað að sér illvígustu skrímslum í geimnum.“

Í Tímanum var Jabba lýst svona:
„En fjölmargarnýjar verur koma til skjalanna. Þar má nefna risastóra og óhugnanlegu veru, sem Jabba heitir – en Jabba er höfuðpaur undirheimanna og hefur safnað í kringum sig ýmsum ferlegustu skrímslum heimsins. Eiga mörg þeirra vafalaust eftir að örva hjartslátt bíógesta, þar á meðal ófreskja ein mikil, sem Jabba geymir í kjallaranum hjá sér og notar til þess að ganga frá óvinum sínum.“
Ekki nóg með að Jeremy Allen White sé að leika Rotta, heldur er hann um þessar mundir í tökum á Deliver Me from Nowhere, ævisögulegri mynd um Bruce Springsteen. Þar mun hann einmitt fara með hlutverk aðalpersónunnar, rokkstjörnunnar ástsælu.