Bæði karla- og kvennalandslið Íslands eru nú farin að gera sig gildandi á Evrópumótum og því vel hægt að ímynda sér að Íslendingar ferðist á stórmótin sem hér um ræðir.
Strákarnir okkar hafa komist á hvert einasta EM frá og með árinu 2000 og er búið að raða þeim í riðil í Kristianstad í Svíþjóð á næsta EM, sem fram fer í janúar 2026. Eftir niðurstöðu EHF í dag eru þetta næstu gestgjafar EM karla:
2026: Danmörk, Noregur og Svíþjóð (úrslitahelgin í Herning)
2028: Portúgal, Spánn og Sviss (úrslitahelgin á Spáni)
2030: Tékkland, Pólland og Danmörk (úrslitahelgin í Prag)
2032: Þýskaland og Frakkland (úrslitahelgin í Þýskalandi)
Áður hafði komið fram að strákarnir okkar yrðu á heimavelli á HM 2031 því Ísland mun halda það mót ásamt Noregi og Danmörku, að því gefnu að ný þjóðarhöll verði þá risin.
EHF þarf að finna gestgjafa 2030
Stelpurnar okkar léku á EM sem brátt er að ljúka og farið hefur fram í Ungverjalandi, Sviss og Austurríki, og var það fyrsta Evrópumót þeirra síðan árið 2012.
Rússar áttu að halda næsta Evrópumót en það var tekið af þeim eftir innrás þeirra í Úkraínu.
Gestgjafar næstu Evrópumóta kvenna eru:
2026: Tékkland, Pólland, Rúmenía, Slóvakía og Tyrkland
2028: Danmörk, Noregur og Svíþjóð
2030: Engin umsókn og í höndum framkvæmdaráðs EHF að ákveða
2032: Þýskaland, Danmörk og Pólland (úrslitahelgin í Þýskalandi)