Lyklaskiptunum voru gerð góð skil í kvöldfréttum Stöðvar 2 líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.
Dagurinn hófst í Stjórnarráðinu þar sem að Kristrún Frostadóttir tók við lyklum frá Bjarna Benediktssyni en hann átti reyndar eftir að afhenda tvenna lykla til viðbótar.

Næst var það utanríkisráðuneytið en þar tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir við lyklum frá Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur en þær áttu tilfinningaríka stund saman. „Ég er mjög glöð að þú sért að taka við þessu ráðuneyti,“ sagði Þórdís við arftaka sinn Þorgerði.

Bjarni og Inga Sæland féllust síðan í faðma í félagsráðuneytinu og hinu megin við ganginn í sama húsi varð Alma Möller fyrsti læknirinn til að taka við lyklum að heilbrigðisráðuneytinu. Þá tók Hanna Katrín Friðriksson við lyklum að atvinnuvegaráðuneytinu, áður matvælaráðuneytinu þangað sem fleiri málaflokkar verða færðir undir.

Í dómsmálaráðuneytinu var skipt á lykli og nútímalegu korti þegar Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir tók við lyklavöldum af Guðrúnu Hafsteinsdóttur. Í umhverfisráðuneytinu kom Guðlaugur Þór klyfjaður gjöfum og veitti Jóhanni Páli Jóhannsyni arftaka sínum ítarlegt lesefni en í fjármálaráðuneytinu gaf Sigurður Ingi Jóhannsson nýjum fjármálaráðherra, Daða Má Kristóferssyni bók um ála.

Eyjólfur Ármannsson og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, nýjir ráðherrar Flokks fólksins, fengu einnig lykla að sínum ráðuneytum. Loks tók Logi Einarsson við lyklum í háskóla- og nýsköpunarráðuneytinu, en hann tók einnig myndskreytingar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í sátt.
