Heimamenn voru marki undir í hálfleik og vantaði allt líf í sóknarleikinn. Andri var þá settur inn á fyrir Promise David og skoraði á 60. mínútu, en því miður fyrir hann var liðið þá búið að fá á sig tvö mörk til viðbótar.
USG er nú komið með 31 stig og fór með sigrinum upp fyrir Gent í stöðutöflunni. Eitt stig skilur liðin nú að í fimmta og sjötta sæti deildarinnar.
Þetta var þriðja deildarmark Andra í sextánda leiknum sem hann kemur við sögu fyrir Gent, þar að auki hefur hann gefið eina stoðsendingu.
Andri byrjaði vel eftir að hafa gengið til liðs við Gent í sumar, lagði upp eitt og skoraði tvö mörk í fyrstu átta leikjunum sem hann spilaði. Hann hefur hins vegar ekki skorað síðan þann 29. september, eða í síðustu átta leikjum sem hann spilaði.
Því skal þó haldið til haga að Andri skoraði landsliðsmark fyrir Ísland gegn Wales í nóvember.
Hann var geymdur á bekknum í tveimur af síðustu fjórum deildarleikjum, í hinum tveimur spilaði hann minna en tíu mínútur.
Deildin er nú á leið í frí fram að nýju ári og spennandi verður að fylgjast með hvort Andri fái tækifæri í byrjunarliðinu gegn Dender þann 12. janúar.