Skoðun

Evrópu­sam­bandið eða nas­ismi

Snorri Másson skrifar

Stefnt er að því af hálfu sitjandi ríkisstjórnar að koma Íslandi inn í Evrópusambandið og vinnan er hafin. Þegar svona mikið stendur til duga engin vettlingatök í áróðursstarfseminni.

Samfylkingarmaðurinn Guðmundur Andri Thorsson sparar ekki stóru orðin: „Kominn er tími til að við Íslendingar horfumst í augu við að við deilum gildum og verðmætamati með Evrópusambandsþjóðunum, og nú gætum við hreinlega þurft að fá skjól frá þeim þjóðum gagnvart lífsrýmishyggju Trumps, sem verður æ brjálæðislegri í ofsafengnum þjóðernisofstopa hans, og minnir ískyggilega á tal þýskra nasista kringum sína valdatöku á fjórða áratug síðustu aldar.“

Samkvæmt þessu grefur nasisminn um sig vestanhafs og þá bersýnilega ekki annað í stöðunni fyrir okkur en að ganga ESB á hönd. Einkum í ljósi hinna sameiginlegu „gilda og verðmætamats.“

Ljóst er að fram undan er harðvítug deila um áhrif ESB á okkur Íslendinga á öllum sviðum þjóðlífsins. Til einföldunar skulum við í þessari grein velta fyrir okkur einum anga málsins, sem er skoðana- og málfrelsi borgara. Hvaða sess hafa þau grunngildi í verðmætamati sambandsins?

Lýðræðisríki til fyrirmyndar

Þjóðverjar stórhertu löggjöf í kringum tjáningu á netinu árið 2017, ekki í baráttu við hefðbundin lögbrot eins og barnaníð eða skipulagða glæpastarfsemi, heldur í baráttunni við hina nýju óvini ríkisins, hatursorðræðu og upplýsingaóreiðu á meðal almennra borgara.

Með þessu leyfðist stjórnvöldum til dæmis að skylda samfélagsmiðlafyrirtæki til að eyða út færslum innan sólarhrings, ella ættu þau meiri háttar sektir yfir höfði sér. Kælingaráhrifin eru þess eðlis að þessi sömu fyrirtæki fylgjast sérstaklega vel með orðræðu sem stjórnvöldum mislíkar og spara sér í sumum tilvikum sporin með því að banna hana fyrir fram.

Þessi „framsækna“ löggjöf færði þýsku ríkisvaldi svo hentugar valdheimildir að önnur ríki víða um heim tóku sér hana til fyrirmyndar og settu sér svipuð lög.

Hið vestræna frjálslynda lýðræðisríki veitti þar innblástur stjórnvöldum í Rússlandi, Venesúela, Víetnam og Hvíta-Rússlandi, sem vísuðu mörg beint til hinnar þýsku löggjafar þegar þau hertu sjálf tökin á umræðunni heima fyrir.

Varar stjórnmálamann við að veita viðtal

Evrópusambandið sjálft fylgdist hrifið með. Árið 2022 voru sjónarmið Þjóðverja tekin upp og innleidd í pakka sem mætti kalla evrópska stjórnarskrá fyrir netheima, Digital Services Act. Þeirri löggjöf hefur verið lýst sem „leiðarvísi fyrir ritskoðun“ af þýska blaðinu Die Welt.

Einn ábyrgðarmanna þeirrar löggjafar ESB var hinn franski Thierry Breton, sem þar til í fyrra var framkvæmdastjóri innri markaðar hjá sambandinu.

Breton er enn ötull talsmaður regluverksins og hefur farið mikinn gegn breytingum Elon Musk á ritskoðunarkerfum á samfélagsmiðlinum X. Nú síðast sendi kommissarinn fyrrverandi út sérstakt tíst til Alice Weidel, formanns hins þýska Alternative für Deutschland, þar sem hann varaði hana við að veita Musk viðtal á miðlinum, í ljósi meintra brota Musk á samfélagsmiðlareglum ESB.

Oft er það afgreitt sem ofsóknaræði þegar menn lýsa áhyggjum af ritskoðunartilhneigingum Evrópusambandsins. En nú er svo komið að þær birtast okkur bæði í opinberum yfirlýsingum á borð við þessar, en einnig í formlegri löggjöf.

Umræða um kynja- og útlendingamál leyfð

Það þarf ekki að hafa undirritaðan fyrir þessu. Í merkri nýlegri yfirlýsingu gagnrýnir Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook og Instagram, stjórnvöld víða um heim fyrir að þrýsta á bandaríska samfélagsmiðla að ritskoða sífellt meira efni. „Evrópa hefur innleitt sífellt fleiri lög, þar sem ritskoðun er lögfest með kerfisbundnum hætti,“ segir forstjórinn.

Zuckerberg staðfestir líka það sem þó hefur lengi legið fyrir, að á undanförnum fjórum árum hafi bandarísk yfirvöld, undir forystu demókrata, þrýst á samfélagsmiðla að ritskoða ákveðið efni. Nú stendur til að aflétta þeirri ritskoðun á miðlum Meta.

Athyglisvert er að þar nefnir forstjórinn sérstaklega að ritskoðun hafi verið mikil í málaflokkum á borð við innflytjendamál og kynjamál.

Að sönnu virðist forstjóri Meta með yfirlýsingum sínum öðrum þræði vera að koma sér í mjúkinn hjá nýjum forseta repúblikana. Við heima getum þó notað tækifærið til að taka alvarlega þær opinberanir sem koma fram, óháð því við hvaða kringumstæður þær fljóta upp á yfirborðið.

Woke gervigreind

Annar bandarískur tæknifrömuður og stjórnarmaður hjá Meta, Marc Andreessen, hefur svipt hulunni af því sem hann segir gerræðislegar fyrirætlanir fráfarandi stjórnvalda demókrata í tengslum við málfrelsið. Segir hann að ritskoðunarstefnan á samfélagsmiðlum hafi ekki verið neitt miðað við það sem stóð til að gera með hin nýju gervigreindarlíkön, sem hafi átt að gera að „stökkbreyttri ritskoðunarvél.“

Andreessen bætir við: „Allt var það 100% með ráðum gert. Þannig færðu hluti eins og þeldökkan George Washington hjá Google.“

Þar er vísað til þess þegar Gemini-gervigreindarlíkan Google vakti heimsathygli fyrir sögufalsanir í nafni fjölbreytileikans.

Mögulega hefur Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingarkona og nýr forseti Alþingis, verið sátt með hina nýju söguskoðun, en hún skrifaði nýlega: „Mynd gervigreindar af heiminum er skelfileg. Allir hvítir og eiginlega bara karlar. Valdastrúktúrinn!“

Hugmyndafræðilegir straumar í þessum dúr munu í öllu falli hafa tryggt að starfsmenn Google pössuðu vel upp á allar stillingar, jafnvel þótt það kostaði þá trúverðugleikann.

Ísland til framtíðar

Ef menn leggja þetta út á versta veg, teiknast upp ákveðin martraðarsýn þar sem ofurgreindar vélar eru látnar, að skipan stjórnvalda, ljúga blákalt að grunlausum almenningi, hvort sem það er með gervigreind eða á samfélagsmiðlum eða hvoru tveggja í senn. Við þær aðstæður er aukaatriði hve „inngildandi“ hin yfirlýsta hugmyndafræði er.

Ef Ísland gengur í Evrópusambandið verður tjáningarregluverk þess að reglu hér í meira mæli en er nú þegar. Forvitnilegt væri að fá það fram frá forsætisráðherra hvort henni hugnist þeir ritskoðunartilburðir sem liggja nú fyrir í opinberum ummælum.

Í umræðu um þau mál sem Zuckerberg nefndi, útlendingapólitík og kynjapólitík, gætir þeirrar tilhneigingar að stjórnmálamenn sýni því ekki sérstakan áhuga að kjósendur séu óánægðir með þessi mál.

Öllu heldur hafa sumir stjórnmálamenn fyrst og fremst áhyggjur af möguleikum kjósenda til að tjá þessar sömu áhyggjur. Slíkur hugsunarháttur skal aldrei verða ofan á hér á Íslandi.

Úr því að þegar hefur verið ákveðið að kljúfa þjóðina í tvennt með og á móti ESB, er alveg eins gott að við notum tækifærið og efnum til umræðu um okkar grunngildi og verðmætamat, eins og Guðmundur Andri orðaði það.

Það er þó spurning í þeirri umræðu hver mun bera mesta ábyrgð á „skautuninni.“ Manni verður í sambandi við varnaðarorð Samfylkingarmannsins hugsað til hins þekkta lögmáls Godwins: „Eftir því sem umræða á netinu dregst á langinn, nálgast líkurnar á að einhver sé borinn saman við nasista eða Hitler 100%.“

Hér þurfti umræðan ekki einu sinni að dragast á langinn. Það er vika liðin af nýju ári. Erum við ekki á móti ofstopa?

Höfundur er þingmaður Miðflokksins. 




Skoðun

Sjá meira


×