Enski boltinn

Potter hent úr bikarnum í fyrsta leik

Valur Páll Eiríksson skrifar
Markaskorararnir Rodgers og Onana fagna í kvöld. Villa-liðið var í sérstökum svörtum treyjum vegna 150 ára afmælis félagsins.
Markaskorararnir Rodgers og Onana fagna í kvöld. Villa-liðið var í sérstökum svörtum treyjum vegna 150 ára afmælis félagsins. Shaun Botterill/Getty Images

Aston Villa vann 2-1 endurkomusigur á West Ham United í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í fótbolta á Villa Park í Birmingham í kvöld. Graham Potter varð því að sætta sig við tap í fyrsta leik hans við stjórnvölin hjá gestunum.

Um var að ræða fyrsta leik West Ham undir stjórn Grahams Potter sem tók við liðinu af baskneska Spánverjanum Julen Lopategui sem var sagt upp í vikunni eftir aðeins örfáa mánuði í starfi.

Það byrjaði vel hjá Potter þar sem Brasilíumaðurinn Lucas Paquéta veitti Hömrunum forystuna eftir tæplega níu mínútna leik þegar Crysancio Summerville fann hann óvaldaðan á teignum.

Skömmu síðar missti West Ham hins vegar Þjóðverjann Niclas Füllkrug meiddan af velli og Ross Barkley fór sömuleiðis meiddur út af hjá Villa-mönnum. Staðan aftur á móti 1-0 í hálfleik og Aston Villa átti ekki eina einustu marktilraun gegn West Ham-liði sem leit vel út undir nýjum stjóra.

Aston Villa tókst að jafna á 71. mínútu þegar Belginn Amadou Onana kom boltanum yfir línuna af stuttu færi eftir hornspyrnu. Leikmenn West Ham voru ósáttir við dómara leiksins eftir markið og ástæða þess tvíbent. Þeir vildu meina að hornspyrnudómurinn hefði í raun átt að vera markspyrna fyrir West Ham og þá kölluðu þeir eftir broti á Ezri Konsa, varnarmann Aston Villa, eftir samskipti hans við Lucas Paqueta á teignum í aðdraganda marksins.

Engin myndbandsdómgæsla er hins vegar til staðar á þessu stigi FA-bikarsins og markið stóð.

Villa-menn hömruðu járnið meðan það var heitt. Aðeins fjórum mínútum eftir mark Onana kom Morgan Rodgers liðinu yfir eftir snögga sókn. Ollie Watkins gerði vel, fann Rodgers á teignum og sá síðarnefndi stýrði boltanum í netið.

Eftir að hafa gott sem ekkert getað framan af leik höfðu Villa-menn snúið taflinu sér í vil á örstuttum kafla. Sá kafli skilaði sínu, liðið vann 2-1 sigur og er komið áfram í fjórðu umferð bikarkeppninnar.

Draumabyrjun Potters með Hamranna varð að engu og hann snýr sér nú að næsta verkefni sem er deildarleikur við Fulham í miðri næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×