Þann 10. janúar greindi færeyski miðillinn in.fo frá því að Víkingar hefðu boðið í hinn tvítuga Áka og vildu fá hann í Víkina. Um er að ræða U-21 árs landsliðsmann Færeyja sem getur bæði spilað á bakvið fremsta mann sem og á báðum vængjum. Hann skoraði 12 mörk í efstu deild Færeyja á síðustu leiktíð.
Í frétt in.fo kemur fram að Ranheim, sem spilar í norsku B-deildinni, hefði einnig boðið í Áka en HB Þórshöfn tók báðum tilboðum.
Í dag, mánudag, greindi in.fo svo frá því að Áki hefði ákveðið að taka tilboði Ranheim og mun hann því ganga í raðir félagsins á næstu dögum. Víkingar sitja hins vegar eftir með sárt ennið og eru eflaust í leit að sóknarþenkjandi leikmanni.
Víkingur mætir Panathinaikos frá Grikklandi í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu í febrúar.