Viðskipti erlent

Vilja banna far­þegum að fá sér þriðja drykkinn á flug­vellinum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Samkvæmt gögnum Alþjóðasamtaka flugfélaga (IATA) hefur atvikum þar sem farþegi lætur illa í flugferðum fjölgað á síðustu árum. 
Samkvæmt gögnum Alþjóðasamtaka flugfélaga (IATA) hefur atvikum þar sem farþegi lætur illa í flugferðum fjölgað á síðustu árum.  EPA

Flugfélagið Ryanair hefur gert ákall eftir að farþegar sem ferðast um evrópska flugvelli megi einungis kaupa tvo drykki fyrir flugtak. Með takmörkuninni yrði komið í veg fyrir að ölvaðir farþegar yllu truflun um borð.

Í ákalli Ryanair til Evrópusambandsins er óskað eftir því að tveggja drykkja takmark verði lagt á hvert brottfararspjald á sama hátt og takmörk eru fyrir því hve miklum peningum hægt er að eyða í fríhöfnum. 

CNN hefur eftir talsmanni Ryanair að þegar flugferðum er seinkað eigi farþegar til að drekka óhóflega án nokkurra takmarkana. „Við skiljum ekki hvers vegna farþegar á flugvöllum er ekki meinað að fá sér fleiri en þrjá drykki. Þetta kæmi til með að stórbæta hegðun farþega um borð.“

Þá benti talsmaðurinn á að Ryanair og fleiri flugfélög takmarki þegar áfengissölu í flugferðum sínum.

Flugfélagið hefur hafið málaferli gegn farþega sem lét öllum illum látum um borð í flugvél á leið frá Dulin til Lanzarote í apríl í fyrra. Atvikið leiddi til þess að flugvélinni var lent í Porto og annarri brottför seinkað um sólarhring. Ryanair fer fram á fimmtán þúsund evra skaðabætur úr hendi flugdólgsins vegna málsins. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×