Körfubolti

„Karfan er æði en lífið er skítt“

Sindri Sverrisson skrifar
Bryndís Gunnlaugsdóttir kveður heimili sitt í nýjasta þættinum af Grindavík.
Bryndís Gunnlaugsdóttir kveður heimili sitt í nýjasta þættinum af Grindavík. Skjáskot/Stöð 2 Sport

„Mig langar bara að segja bless til þess að ljúka þessum kafla,“ segir Grindvíkingurinn Bryndís Gunnlaugsdóttir í nýjasta þættinum af Grindavík, þar sem henni er fylgt í kveðjuheimsókn á heimili sitt í Grindavík.

Bryndís neyddist líkt og aðrir Grindvíkingar til að yfirgefa heimili sitt síðasta vetur, vegna eldgosanna á Reykjanesi, en var á sama tíma að reyna að gera sitt besta sem aðstoðarþjálfari kvennaliðs Grindavíkur í körfubolta.

„Verður aldrei heimilið sem þetta var“

Í þriðja þætti heimildaþáttaraðarinnar Grindavík, sem sjá má á Stöð 2+, snýr hún aftur til Grindavíkur og tekur meðal annars ljósmyndir til að eiga til minningar um húsið sitt sem lá undir skemmdum:

„Ég verð bara að sætta mig við að þetta verður aldrei heimilið sem þetta var. Verður aldrei staðurinn sem að ég og mínir vinir og fjölskylda áttum ánægjustundir. Það er of sárt að vera að koma aftur og aftur, þannig að ég vil bara segja bless,“ segir Bryndís en brot úr þessum áhrifaríku þáttum má sjá hér að neðan.

Klippa: Grindavík - Bryndís kvaddi heimili sitt

Bryndísi er jafnframt fylgt í leik Grindavíkur við Njarðvík sem reyndist heldur betur dramatískur:

„Maður reyndi að vera bara lítill í sér heima og svo mætti ég á körfuboltaæfingu og setti upp andlit – reyndi að vera sterk og hjálpa Lalla [Þorleifi Ólafssyni aðalþjálfara] og öllum stelpunum,“ segir Bryndís en í þættinum ræðir hún einnig við kollega sinn hjá Njarðvík um sína stöðu:

„Karfan er æði en lífið er skítt. Ég lít á björtu hliðarnar. Húsið mitt er líklega ónýtt og ég fæ þá alla vega bætur,“ segir Bryndís en brot úr þættinum má sjá hér að ofan.

Heimildaþáttaröðin Grindavík er sýnd á Stöð 2 Sport á sunnudagskvöldum og þættina má einnig finna á Stöð 2+. Fjallað er um hvern þátt í hlaðvarpsþáttunum Rammi fyrir ramma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×