Fótbolti

Nökkvi siglir til Hollands og getur aftur labbað á kaffi­hús

Sindri Sverrisson skrifar
Nökkvi Þeyr Þórisson er orðinn leikmaður Sparta Rotterdam.
Nökkvi Þeyr Þórisson er orðinn leikmaður Sparta Rotterdam. Sparta Rotterdam

Framherjinn Nökkvi Þeyr Þórisson, markakóngur á Íslandi 2022, segist hafa þroskast mikið á síðustu tveimur árum í Bandaríkjunum. Hann er spenntur fyrir því að skora mörk fyrir sitt nýja félag Sparta Rotterdam, elsta knattspyrnufélag Hollands, og fyrir að snúa aftur í evrópska menningu.

Nökkvi, sem er 25 ára gamall, snýr nú aftur á svipaðar slóðir og þegar hann hóf atvinnumannsferilinn árið 2022, eftir að hafa skorað 17 mörk í aðeins 20 leikjum fyrir KA í Bestu deildinni. Hann lék þá eina leiktíð í Belgíu, með Beerschot, en fór svo til St. Louis City í Bandaríkjunum og hefur spilað í MLS-deildinni síðan.

Núna er hann mættur að láni til Sparta Rotterdam, að láni til að byrja með, og ætlar sér að skora mörk fyrir liðið sem er í mun verri málum en síðustu ár og situr í þriðja neðsta sæti hollensku úrvalsdeildarinnar.

„Eftir að hafa rætt við stjórann og yfirmann knattspyrnumála þá var þetta auðveld ákvörðun. Miðað við það sem þeir sögðu mér er þetta fjölskylduklúbbur, vinalegur klúbbur, með mikinn metnað líkt og ég. Það gekk allt upp,“ segir Nökkvi í viðtali á heimasíðu Sparta Rotterdam.

Hann kveðst hafa þroskast mikið í Bandaríkjunum, í sterkri deild:

„Þetta hefur verið mjög gaman en áskorun um leið. Lífstíllinn er mjög ólíkur lífstílnum í Evrópu, svo þetta hefur þroskað mig á mínum ferli. Deildin er mjög góð og leikmenn þarna í háum gæðaflokki. Ég þroskaðist því mikið sem leikmaður og átti góðan tíma,“ segir Nökkvi og er spurður um muninn á því að vera í Bandaríkjunum eða Hollandi:

„Það er til dæmis ekki auðvelt að fara eitthvert og fá sér kaffisopa. Maður þarf að keyra allt. Líka ef maður vill fara að skokka, þá þarf maður að keyra fyrst. Allt er mikið stærra. Ferðalögin eru líka erfiðari út af miklum tímamun.“

Ef öll pappírsvinna gengur upp vonast Nökkvi til þess að spila sinn fyrsta leik Fyrir Sparta Rotterdam á sunnudaginn, þegar liðið tekur á móti botnliði RKC Waalwijk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×