Fótbolti

Arnar byrjar á því að fara á Anfield og horfa Hákon spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson er á leiðinni út til Englands eftir helgi til að fylgjast með Hákoni Haraldssyni spila á Anfield og ræða við landsliðsmenn sem spila í Englandi.
Arnar Gunnlaugsson er á leiðinni út til Englands eftir helgi til að fylgjast með Hákoni Haraldssyni spila á Anfield og ræða við landsliðsmenn sem spila í Englandi. Vísir/Anton/Getty/Catherine Steenkeste

Arnar Gunnlaugsson er tekinn við sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og hann er þegar byrjaður að undirbúa næstu leiki liðsins sem eru tveir leikir á móti Kósóvó í umspili Þjóðadeildarinnar í mars.

Íslensku landsliðsmennirnir spila margir með erlendum liðum þar sem tímabilið er núna í fullum gangi.

Arnar ætlar að fylgjast náið með frammistöðu landsliðsmannanna með sínum félagsliðum og er þegar búinn að skipuleggja fyrstu ferðina sína út.

„Ég er að fara til Liverpool á þriðjudaginn að horfa á mjög skemmtilegan leik hjá Lille á móti Liverpool á Anfield þar sem Hákon er að spila,“ sagði Arnar Gunnlaugsson í viðtali í Síðdegisútvarpi Rásar 2.

„Geggjað hjá honum að spila á þessum stóra velli sem ég kannast mjög vel við,“ sagði Arnar sem lék sjálfur á sínum tíma í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég hitti í leiðinni aðra stráka sem eru að spila í Englandi. Svona byrjar þetta bara. Að hafa samband við hina og þessa, veita þeim aðhald og stuðning. Þetta er öðruvísi starf en ég er vanur undanfarin ár þar sem þú ert í daglegum samskiptum við leikmenn,“ sagði Arnar.

„Núna þarftu bara að sjá til þess að þú sért klár í fáa leiki sem gerir verkefnið meira krefjandi en engu að síður spennandi,“ sagði Arnar.

Hákon Arnar Haraldsson skoraði í Meistaradeildinni í nóvember þegar hann kom inn á sem varamaður og tryggði Lille sigur á Sturm Graz. Nú fær hann vonandi tækifæri til að spila á móti stórliði Liverpool og sýna sig um leið fyrir nýja landsliðsþjálfaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×