Erlent

Verður for­sætis­ráðherra Ír­lands á ný

Atli Ísleifsson skrifar
Micheal Martin gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 2020 til 2022.
Micheal Martin gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 2020 til 2022. EPA

Írska þingið kemur saman til fundar á ný í dag þar sem skipaður verður nýr forsætisráðherra eftir þingkosningarnar sem fram fóru í lok nóvember. Micheál Martin, leiðtogi Fianna Fáil, mun þar taka við embætti forsætisráðherra af Simon Harris, leiðtoga Fine Gael, sem mun taka við embætti aðstoðarforsætisráðherra.

Í kosningunum náði Fianna Fáil flestum mönnum inn á þing, eða 48 talsins, og hefur nú myndað stjórn með Fine Gael ásamt nokkrum óháðum þingmönnum.

Í frétt BBC segir að Sinn Féin verði áfram stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn eftir að hafa tryggt sér 39 þingsæti. Fine Gael náði inn 38 þingmönnum.

Martin, sem gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 2020 til 2022, og Harris tilkynntu fyrr í janúar að samkomulag hefði náðst um stjórnarmyndun og stjórnarsáttmála sem báðir flokkarnir hefðu samþykkt.

Fianna Fáil og Fine Gael höfðu báðir útilokað stjórnarsamstarf með Sinn Féin sem Mary Lou McDonald, leiðtogi flokksins, lýsti sem „slæmum starfsháttum“.

Nokkrar deilur hafa staðið í aðdraganda þingsetningarinnar eftir að einhverjir þeirra óháðu þingmanna sem styðja nýja stjórn óskuðu eftir því að sitja stjórnarandstöðumegin í þingsalnum og tala þaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×