Fyrr í vikunni staðfesti skrifstofa Alþingis að Flokkur fólksins uppfyllti ekki skilyrði fyrir úthlutun fjárstyrkja til stjórnmálaflokka. Flokkurinn hefur þegið 240 milljónir króna þrátt fyrir að vera enn skráður sem „félagasamtök“ í fyrirtækjaskrá. Til stóð að flokkurinn fengi 70 milljónir í vikunni, fyrir árið 2025.
Inga Sæland hefur síðan sagt að til standi að breyta skráningu flokksins á landsfundi í næsta mánuði. Flokkurinn sé ekki á flæðiskeri staddur.
Fjármálaráðherra var spurður út í málið, og hvort honum þætti alvarlegt að flokkurinn hefði fengið um 240 milljónir króna í opinbera styrki, þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrðin.
„Það á auðvitað að fara að lögum og verklagi hjá ráðuneytinu og öðrum þeim aðilum sem greiða út styrki samkvæmt þessum lögum hefur verið breytt. Síðan verður bara að yfirfara málið í heild sinni,“ sagði Daði Már að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Flokkurinn muni því ekki fá greidda styrki fyrir þetta ár, eftir að breytingar voru gerðar á verklaginu.
„Ekki fyrr en það hefur þá verið gerð bragarbót og þau uppfylla skilyrða laganna,“ sagði Daði.