Erlent

Musk birtist ó­vænt og á­varpaði sam­komu fjarhægrimanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Musk á samkomu AfD í gærkvöldi.
Musk á samkomu AfD í gærkvöldi. Vísir/AP

Elon Musk, samfélagsmiðla- og tæknimógúll, flutti óvænt ræðu á fjöldafundi AfD, Valkosti fyrir Þýskaland, flokki sem lýst hefur verið sem „fjarhægri“, í gær.

Musk kom fram í gegnum fjarfundarbúnað og ávarpaði samkomuna en þetta er í annað sinn sem hann lýsir yfir stuðningi við flokkinn og áherslumál hans á jafnmörgum vikum. 

Musk varaði í ræðu sinni við fjölmenningarstefnu og sagði mikilvægt að standa vörð um þýska menningu og gildi. Þá sagði hann að börn ættu ekki að vera „dæmd sek“ fyrir syndir foreldra sinna, og virtist þar vísa til forfeðra sem aðhylltust nasisma í Þýskalandi á síðustu öld. 

Hann ítrekaði enn fremur stuðning sinn við flokkinn og sagði hann besta kostinn fyrir Þýskaland.

Fjölmiðlafár varð í liðinni viku eftir að Musk kom fram á viðburði tengdum innsetningarathöfn Donalds Trump og var sakaður um að hafa heilsað að nasistasið, sem Musk þvertekur fyrir að hafa gert.

AfD er lengst til hægri á hinu pólitíska rófi í Þýskalandi. Flokkurinn var rekinn úr bandalagi fjarhægriflokka í fyrra eftir hrinu hneykslismála. Meðal þeirra voru ummæli Maximilian Krah, leiðtoga AfD á Evrópuþinginu, um að ekki allir nasistar hefðu verið stríðsglæpamenn og notkun annars flokksfélaga, Björn Höcke, á slagorði nasista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×