Enski boltinn

Dag­ný kom inn af bekknum í mikil­vægum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný kom inn af bekknum í dag.
Dagný kom inn af bekknum í dag. Paul Harding/Getty Images

Dagný Brynjarsdóttir kom inn af bekk West Ham United þegar liðið vann mikilvægan 2-0 sigur á Everton í efstu deild kvenna í knattspyrnu á Englandi. Þá vann topplið Chelsea 1-0 sigur á nágrönnum sínum í Arsenal og jók þar með forystu sína á toppnum.

Dagný, sem er fyrrverandi fyrirliði liðsins, hefur ekki verið í myndinni hjá Rehanne Skinner, undanfarið. Hún sat allan tímann á bekknum þegar Hamrarnir lögðu Tottenham Hotspur 2-1 í enska deildarbikarnum á dögunum og var ekki í leikmannahópnum þegar liðið tapaði 5-0 fyrir Chelsea.

Í dag kom Dagný hins vegar inn af bekknum þegar tæpur stundarfjórðungur var liðinn. Staðan var þá þegar orðin 2-0 þökk sé mörkum Shekiera Martinez og Viviane Asseyi.

Sigurinn var mikilvægur þar sem West Ham hefði með tapi verið aðeins þremur stigum frá botnliði Crystal Palace sem situr í 12. sæti að loknum 12 umferðum en neðsta lið deildarinnar fellur. Í staðinn er West Ham í 8. sæti með 11 stig.

Topplið Chelsea vann þá nauman 1-0 sigur á Arsenal sem hefur verið á góðu skriði undanfarið. Sigurmarkið skoraði Guro Reiten af vítapunktinum á 84. mínútu eftir að Katie McCabe gerðist brotleg innan vítateigs. McCabe fékk gult spjald fyrir brotið og svo annað gult, og þar með rautt, eftir mótmæli.

Chelsea er nú með 34 stig á toppi deildarinnar. Þar á eftir kemur Manchester City með 25 stig á meðan Arsenal og Manchester United eru með 24 stig. Man United á leik til góða á liðin þrjú fyrir ofan sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×