Stjarnan sækir Grindavík heim í Smárann í Kópavogi á fimmtudagskvöld og þar gæti hinn 37 ára gamli Jaka Klobucar spilað sinn fyrsta leik fyrir Garðbæinga.
Klobucar er fjölhæfur bakvörður sem býr yfir mikilli reynslu en í tilkynningu Stjörnumanna kemur fram að hann hafi til að mynda verið hluti af A-landsliði Slóvena á árunum 2007-2017.
Samkvæmt Wikipedia-síðu kappans hefur hann þrívegis orðið slóvenskur meistari og unnið slóvenska bikarinn fjórum sinnum, auk þess að vera valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar í Slóveníu 2014.
Þá var hann í stjörnuliði tyrknesku deildarinnar 2017 þegar hann lék með Istanbul BB, en þaðan fór hann til Galatasaray. Klobucar hefur síðan einnig leikið í Frakklandi, Grikklandi og Ungverjalandi en var síðast á mála hjá Cedevita Olimpija í heimalandi sínu.
Stjörnumenn segja Klobucar geta leyst margar stöður á vellinum en að hann sé einnig þekktur fyrir sterkan varnarleik og eigi því að passa vel inn í hópinn hjá Stjörnunni.
Félagaskiptaglugginn í íslenskum körfubolta lokast á miðnætti á föstudagskvöld.