Kristian, sem er 21 árs gamall, kom til Ajax árið 2020 og sprakk út á síðustu leiktíð þegar hann skoraði til að mynda sjö mörk í hollensku úrvalsdieldinni og spilaði þar 25 leiki.
Á þessu tímabili hefur Kristian hins vegar lítið spilað fyrir aðallið Ajax, en meira fyrir varaliðið. Hann hefur verið í byrjunarliði aðalliðsins í þremur deildarleikjum, síðast 1. desember, og í einum leik í Evrópudeildinni í haust.
Kristian fær væntanlega fleiri tækifæri hjá Sparta Rotterdam en liðið er í umspilsfallsæti með 17 stig eftir 20 leiki, þremur stigum frá næsta örugga sæti. Næsti leikur liðsins er við Groningen á sunnudaginn.
Það verða tveir íslenskir Nökkvar í liði Sparta Rotterdam það sem eftir lifir leiktíðar því fyrr í þessum mánuði kom Dalvíkingurinn Nökkvi Þeyr Þórisson til félagsins frá Bandaríkjunum.
Samningur Kristians við Ajax gildir til sumarsins 2026 og hann mun því að óbreyttu snúa aftur til Amsterdam í sumar, þegar lánsdvölinni í Rotterdam lýkur.