Handbolti

Franska stór­liðið stað­festir komu Dags

Aron Guðmundsson skrifar
Það verður spennandi að sjá Dag Gautason spreita sig með Montpellier
Það verður spennandi að sjá Dag Gautason spreita sig með Montpellier Mynd: ØIF Arendal

Vinstri hornamaðurinn Dagur Gautason hefur samið við franska stórliðið Montpellier til loka tímabilsins. Þetta staðfesti franska félagið núna í morgun. 

Montpellier varð fyrir áfalli þegar að sænski landsliðsmaðurinn Lucas Pellas sleit hásin á nýafstöðnu heimsmeistaramóti með sænska landsliðinu og verður hann frá út yfirstandandi tímabil og því var ákveðið að sækja Dag.

Dagur, sem er uppalinn hjá KA, hefur farið á kostum með Arendal í norsku úrvalsdeildinni og var valinn besti vinstri hornamaður deildarinnar á síðustu leiktíð. Hann hefur svo haldið áfram að standa sig vel í vetur og er langmarkahæstur í liðinu með 83 mörk í 17 leikjum, og í 9. sæti yfir markahæstu menn í allri deildinni.

Hann gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Montpellier á laugardaginn næstkomandi þegar liðið mætir Aix í átta liða úrslitum franska bikarsins. 

Montpellier hefur fjórtán sinnum orðið franskur meistari, síðast árið 2012, þrettán sinnum bikarmeistari og tvívegis unnið Meistaradeild Evrópu, síðast árið 2018.

Liðið er sem stendur í 3.sæti frönsku deildarinnar þremur stigum á eftir toppliðum PSG og Nantes og í Evrópudeildinni er Montpellier langt komið með að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×