Viðskipti innlent

Kanna einnig jarð­veginn fyrir Coda-stöð á Bakka

Kjartan Kjartansson skrifar
Norðurþing vinnur að uppbyggingu græns iðngarðs á Bakka sem Carbfix telur að falli vel að markmiðum um að hafa jákvæð áhrif á loftslagsbreytingar.
Norðurþing vinnur að uppbyggingu græns iðngarðs á Bakka sem Carbfix telur að falli vel að markmiðum um að hafa jákvæð áhrif á loftslagsbreytingar. Vísir/Vilhelm

Kolefnisförgunarfyrirtækið Carbfix skoðar nú möguleikann á að reisa svonefnda Coda-stöð á Bakka fyrir utan Húsavík. Bakki er þriðji staðurinn á landinu þar sem Carbfix leitar hófanna um að koma upp slíkri kolefnisförgunarstöð.

Byggðaráð Norðurþings vísaði sameiginlegri yfirlýsingu sveitarfélagsins og Carbfix um mögulegt samstarf til afgreiðslu í sveitarstjórn í morgun. Í kynningu forsvarsmanna fyrirtækisins kom fram að það vilji skða möguleikann á samstarfi um svokallaða Coda-stöð í tengslum við uppbyggingu á grænum iðngarði á Bakka.

Hugmyndirnar um staðsetningu á Bakka eru sagðar á frumstigi í kynningunni. Þó er búið að kynna það fyrir byggðaráði, stéttarfélögunum á svæðinu og hagaðilum. Ráðast eigi í frekari kyningar og umræðufundi til þess að kanna fýsileika verkefnsins. Gangi það að óskum verði viljayfirlýsing á milli Carbfix og sveitarfélagsins undirrituð og ráðist í frekari rannsóknir til að meta möguleikanna á staðsetningu starfseminnar í Norðurþingi.

Coda-stöðvum Carbfix er ætlað að taka á móti koltvísýringi frá iðnaði erlendis og binda hann í berglögum með aðferð sem fyrirtækið þróaði við Hellisheiðarvirkjun. Koltvísýringurinn sem stöðvarnar tækju við yrði fangaður úr iðnaðarútblæstri þar sem erfitt er að draga úr losun eins og við stálframleiðslu og sementsgerð.

Áform í bæði Hafnarfirði og Þorlákshöfn

Bakki er þriðji staðurinn sem hefur verið nefndur fyrir Coda-stöð Carbfix. Lengst á veg er fyrirhuguð stöð við Straumsvík við Hafnarfjörð komin. Hún er í umhverfismatsferli en óvíst er um afdrif hennar vegna háværrar andstöðu sumra íbúa í sveitarfélaginu vegna áhyggna af áhrifum starfseminnar. Núverandi bæjarstjóri sagði í fyrra að haldin yrði íbúakosning um verkefnið næðust samningar um það.

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti viljayfirlýsingu við Carbfix í lok janúar um mögulega Coda-stöð í Þorlákshöfn. Þar hefur þegar verið haldinn kynningarfundur með íbúum um verkefnið enda forsvarsmenn þess minnugir andstöðunnar sem gaus upp í Hafnarfirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×