„Þetta kemur upp 2022 þegar ég þarf að hætta. Svo er ég veikur í einhverja mánuði og þarf að fara í aðgerð. Ég pældi í raun ekkert í þessu, maður var að jafna sig á aðgerðinni og læra að lifa með þessu og maður er ennþá að því,“ segir Björn í samtali við íþróttadeild.
Björn sem er með svokallaða IgA-nýrnabilun og á örfáum vikum hraðaði þróun sjúkdómsins mjög og hann þurfti nýtt nýra. Móðir hans, Berglind Steffensen, gaf honum nýra en hann lagði körfuboltaskóna á hilluna. Sumarið 2024 fór hann hins vegar að kynna sér leiðir til að spila, þrátt fyrir veikindin.
„Svo fór ég að googla og sá að einhver í NBA hefði spilað með svona, ég held það hafi verið Alonzo Mourning. Ég hélt að nýrað færi á sama stað, ástæðan fyrir að maður má ekki spila er högghættan,“ segir Björn.
„Það kom í ljós að menn spiluðu með vörn. Ég sendi á Ivan Klasnic, landsliðsmann Króatíu í fótbolta, á Instagram. Ég bjóst aldrei við að hann myndi svara, en hann svaraði. Hann fór í nákvæmlega sama og spilaði einhverja leiki í Premier League og landsliðinu eftir þetta. Þetta var ekkert flóknara en það. Þetta er bakbelti með vörn á svæðinu,“ segir Björn sem hóf körfuboltaiðkun á ný í haust.
Nánar var rætt við Björn líkt og sjá má í fréttinni að neðan en viðtalið í heild má sjá í spilaranum.