Tæpur mánuður er í fyrstu leiki Íslands undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar, gegn Kósovó í umspili í Þjóðadeild UEFA. Ef fram heldur sem horfir fær Jón Dagur ekki að mæta í neinu leikformi í þá leiki.
Nýr þjálfari Hertha Berlín, Stefan Leitl, tók við liðinu í vikunni og stýrði því í fyrsta sinn í kvöld, í markalausu jafntefli við Nürnberg á heimavelli í þýsku B-deildinni.
Jón Dagur sat allan tímann á varamannabekknum, rétt eins og hann hafði gert síðustu vikur þegar Cristian Fiél var enn þjálfari liðsins.
Raunar hefur Jón Dagur núna ekkert komið við sögu í leikjunum sex sem Hertha Berlín hefur spilað á þessu ári, eftir jólafríið, og var síðasti leikur hans því 13. desember eða fyrir meira en tveimur mánuðum. Hann hefur byrjað sex leiki í deildinni á þessu tímabili.
Ekki er hægt að segja að gengi Hertha Berlín hafi verið gott með Jón Dag á bekknum. Liðið hafði tapað fjórum leikjum í röð fyrir jafnteflið markalausa í kvöld. Liðið er í 12. sæti af 18 liðum, með 26 stig eftir 23 leiki, en Nürnberg er nú í 8. sæti með 35 stig.