Viðskipti innlent

Kaupin á TM gengin í gegn fyrir ríf­lega þrjá­tíu milljarða króna

Árni Sæberg skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, og Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, og Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku. Vísir

Kvika banki og Landsbankinn gengu í dag frá kaupum Landsbankans á 100 prósent hlutafjár TM trygginga hf. Afhending á tryggingafélaginu fór fram samhliða því og greiddi Landsbankinn Kviku banka umsamið kaupverð við afhendingu. Með kaupverðsaðlögun nemur verðið 32,3 milljörðum króna en gæti enn tekið breytingum.

Í tilkynningu Kviku til Kauphallar segir að endanlegt kaupverð verði aðlagað miðað við breytingar á efnislegu eigin fé TM frá upphafi árs 2024 til afhendingardags, sem sé í dag, 28. febrúar 2025.

Munu leggja til sérstaka arðgreiðslu

Umsamið kaupverð sé 28,6 ma.kr. en aðlagað kaupverð nemi um 32,3 milljörðum króna með kaupverðsaðlögun ársins 2024, sem hafi nú verið greitt til Kviku banka. Kaupverðið muni taka frekari breytingum þar sem breyting á efnislegu eigin fé TM frá áramótum til afhendingardags muni bætast við eða dragast frá endanlegu kaupverði.

Stjórn Kviku banka muni leggja til á aðalfundi bankans þann 26. mars næstkomandi sérstaka arðgreiðslu til hluthafa bankans og sú tillaga verði birt samhliða öðrum tillögum stjórnar til aðalfundar eigi síðar en þann 5. mars næstkomandi.

Mikilvægt skref í að skerpa á kjarnastarfseminni

„Það er ánægjulegt að kaup Landsbankans á TM séu gengin í gegn en með sölunni erum við að stíga mikilvæg skref í þá átt að skerpa á kjarnastarfsemi okkar. Markmið okkar er að sækja fram á nýja markaði með framúrskarandi vörur og þjónustu fyrir viðskiptavini okkar og gerum við ráð fyrir að nýta hluta kaupverðsins í þá vegferð. Ég vil þakka stjórnendum og starfsfólki TM kærlega fyrir ánægjulegt og gott samstarf og óska þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi,“ er haft eftir Ármanni Þorvaldssyni, forstjóra Kviku.


Tengdar fréttir

Skrifuðu undir kaup Landsbankans á TM

Landsbankinn gekk frá samningi við Kviku banka um kaup á tryggingafélaginu TM fyrir 28,6 milljarða króna í dag. Kaupsamningur þeirra var skuldbindandi fyrir Landsbankann samkvæmt lögfræðiáliti sem nýtt bankaráðs bankans lét vinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×