Búist var við hörkuleik þar sem þetta eru liðin tvö sem eru að berjast um titilinn. Segja má að jafntefli hafi verið ósanngjörn niðurstaða þar sem heimamenn í Napoli voru mun sterkari aðilinn í leik dagsins.
Það er hins vegar ekki spurt að því og kom Federico Dimarco gestunum yfir með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu eftir rúmar tuttugu mínútur. Eftir það lögðust gestirnir til baka og reyndu að halda fengnum hlut.
Staðan var 0-1 í hálfleik og lengi vel leit út fyrir að gestirnir myndu halda út. Á endanum var það varamaðurinn Philip Billing sem reyndist réttur maður á réttum stað þegar boltinn féll fyrir hann í teignum á 87. mínútu.
Staðan orðin 1-1 og reyndust það lokatölur á Diego Armando Maradona-vellinum í Naples í dag. Eftir 27 umferðir er Inter því á toppi deildarinnar með 58 stig en Napoli er með stigi minna í 2. sæti á meðan Atalanta, sem gerði markalaust jafntefli við Venezia fyrr í dag, er í 3. sæti með 55 stig.