Körfubolti

Kári: Bara negla þessu niður

Árni Jóhannsson skrifar
Kári Jónsson var mikilvægur í kvöld
Kári Jónsson var mikilvægur í kvöld Vísir / Anton Brink

Kári Jónsson var hetja Valsara í kvöld þegar hann kom sínum mönnum yfir 88-87 þegar 27 sekúndur voru eftir af leiknum við ÍR í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld. Leiknum lauk með 90-87 sigri og Valsmenn festa sig í sessi í fjórða sæti deildarinnar.

Kári lauk leik með 14 stig í kvöld og var umræddur þristur sá eini sem rataði í gegnum gjörðina í kvöld. Hann var spurður að því hvað hafi skilað þessu.

„Barátta og vinnusemi það er bara það. Rosalega erfiður leikur og ég er mjög sáttur við að klára þetta.“

Kári kom sínum mönnum yfir með þrist eftir sóknarfrákast Kristófers Acox þegar um 27 sekúndur voru eftir af leiknum. Hvað flaug í gegnum huga hans á því augnabliki?

„Bara að setja hann ofan í. Það eru allir þreyttir og maður þarf bara að negla þessu niður. Ég fékk geggjað tækifæri eftir sóknarfrákastið og Kristó fann mig. Ég var ekki búinn að hitta neitt í leiknum og það var að pirra mig og það var sætt að sjá þetta ofan í.“

Fannst Kára ÍR-ingarnir vera erfiðari en hann átti von á?

„Þeir voru ekki erfiðari en ég átti von á. Þeir áttu frábæran leik, voru hitta frábærlega úr þristum, pressuðu okkur grimmt og við bara vorum í bölvuðu basli. Náðum einhverjum mun í fjórða en náðum aldrei að hrista þá af okkur. Hrikalega mikilvægur sigur.“

Að lokum var Kári spurður að því hvað þeir tækju út úr þessu. Hann þurfti smá stund til að hugsa sig um en endaði skælbrosandi.

„Við getum verið góðir og erum að leggja helvíti mikið á okkur. Þetta er skemmtilegt. Það er það sem ég tek út úr þessu eitt, tvö og þrjú.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×