Jay-Z, sem heitir réttu nafni Shawn Carter, vill meina að ásökun hennar flokkist sem meiðyrði. Þá hafi konan viðurkennt það sjálfviljug að vegna þrýstings hafi hún skáldað sakargiftir sínar á hendur honum. Í stefnunni segir að um hafi verið að ræða „illt samsæri“ þar sem markmiðið hafi verið að kúga fé frá honum, og leggja orðspor hans í rúst.
BBC greinir frá þessari stefnu tónlistarmannsins, en í henni eru lögmenn konunnar jafnframt sakaðir um að hanna atburðarrás málsins.
Í stefnu konunnar var því haldið fram að Jay-Z hefði ásamt Sean „Diddy“ Combs nauðgað henni þegar hún var 13 ára gömul, árið 2000 í kjölfar MTV-verðlaunahátíðarinnar.
Bæði Jay-Z og Diddy neituðu sök, en sá síðarnefndi hefur verið sakaður um fjöldamörg brot á síðustu misserum.
Fullyrt er í stefnu Jay-Z að þrátt fyrir að konan hafi í fyrstu viðurkennt að Jay-Z hafi ekki brotið á henni þá hafi annar lögmanna hennar hvatt hana til að búa til falska frásögn til að styrkja málstað sinn og krefja út hærri bætur.